Börnin að borðinu

Hvaða merkingu leggja börnin í Reykjanesbæ í flókið rammaskipulag hvað varðar staði og svæði sem þau langar að dvelja í og deila með öðrum? Þykjó tekst með lunkni og hugvitssamlegri hönnun að setja upplýsingar fram á skýran og skemmtilegan máta sem allt í senn fræðir, valdeflir og virkjar þátttakendur. Verkefnið er framúrskarandi og góð fyrirmynd sem sveitarfélög geta sótt í, og það sýnir gildi þess að tryggja þátttöku barna í skipulagsverkefnum enda mikilvægt að sem flestar raddir fái að heyrast og hafa áhrif á mótun hins byggða umhverfis.  

Það er fagnaðarefni og fordæmisgefandi að hönnun sé notuð til að efla samtal og skilning, m.a. þegar bæjarfélag deilir áformum sínum og draumum um framtíðina með börnum og kallar eftir samstarfi við þau. Þetta var hluti af virku samráði um nýtt rammaskipulag fyrir Ásbrú sem var samstarfsverkefni Kadeco og Reykjanesbæjar og unnið af Alta. Börn og ungmenni eru virkur og dýrmætur hluti samfélagsins og það þarf að gera ráð fyrir sjónarmiðum þeirra og þörfum.

Ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna eru fá takmörk sett — ef þau fá á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu er þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau eru sérfræðingar í — sköpun og leik.

Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvort tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja. Eins er takmörkuð hefð fyrir því að hugmyndum barna og ungmenna sé miðlað af alvöru og virðingu og unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Í verkefni Þykjó er börnum liðsinnt við að hugsa praktískt, hvort sem það á við um leiksvæði eða ruslatunnur. Leikurinn er ávallt í forgrunni auk samveru, náttúru og fegurðar, vegna þess að börn vilja gjarnan blanda geði og þau vilja betri heim öllum til handa.

Hönnuðir: ÞYKJÓ (Sigríður Sunna Reynisdóttir, Embla Vigfúsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir & Ívar Björnsson

Skóli: Háaleitisskóli á Ásbrú

Samstarfsaðilar: KADECO, kennarar og starfsfólk Háaleitisskóla

Ljósmyndari á vinnustofum: Elfur Hildisif Hermannsdóttir